Búseti á Norðurlandi

Búseti á Norðurlandi er húsnæðissamvinnufélag.

Fréttir

Skrifstofan verður lokuð mánudaginn 26.janúar 2015


Vegna forfalla og fjarveru verður skrifstofan lokuð mánudaginn 26.janúar.

Aftur opið á venjulegum tíma kl 10-12 á þriðjudag 27. jan. 

Framkvæmdastjóri

Nýtt ár framundan


Búseti á Norðurlandi óskar félagsmönnum og samstarfsaðilum gleði og farsældar á árinu 2015.

Fyrir hönd félagsins er ástæða til að við göngum bjartsýn til starfa á árinu og freistum þess að vinna sem best úr þeirri stöðu sem félagið hefur úr að spila.

Búseti á Norðurlandi greiðir of háa verðtryggða vexti af mestum hluta lána félagsins og þannig bera búsetarnir þyngri greiðslubyrði en gott getur talist.

Í þeirri uppstokkun húsnæðisstefnu og íbúðalánakerfisins sem er á verkefnalista ríkisstjórnarinnar hljótum við að kalla eftir því að húsnæðissamvinnufélögum og öðrum félögum almennings sem rekin eru án hagnaðarkröfu verði sköpuð betri starfsskilyrði.

Alls staðar á EES-svæðinu og þeim nágrannalöndum sem við höfum mest að sækja til þá vinna yfirvöld að því að lækka byggingarkostnað og örva starfsemi félaga sem rekin eru án gróðasjónarmiða.   

Sveitarfélög á Islandi hljóta að þurfa að standa undir sambærilegum skyldum og sinna verkefnum á því sviði alveg til jafns við það sem  best gerist í okkar heimshluta.

Það verður í forgangi hjá stjórnendum Búseta á Norðurlandi árið 2015 að kalla eftir leiðréttingu á lánakjörum félagsins - með leiðréttingu verðtryggðra lána og lægri vöxtum  - og skila þannig lægri greiðslubyrði til búsetanna okkar.

Einnig mun félagið áfram vinna að því að virkja samstarf við sveitarstjórnir og velvildaraðila um nýbyggingar og aukinn rekstur hagkvæmra íbúða - til leigu og í búseturétti - og fjölga þannig þeim fjölskyldum sem njóta húsnæðisöryggis með takmarkaðri persónulegri áhættu.

Unnið verður jafnframt að því að skera niður allan kostnað í félaginu - meðal annars með frestun á stærra viðhaldi.

Félagsmenn hafa vonandi áttað sig á því að fréttaflutningur Fréttablaðsins 30.12.2014 um meinta 13% hækkun á mánaðargjaldi var hrein ósannindi eins og bréf félagsins 1.desember 2014 hafði áður útskýrt.    

Hækkun mánaðargjalds verður örlítið breytileg eftir íbúðum en almennt á bilinu 2,5-4% sem hlýtur að teljast ásættanlegt fyrir flesta og vonandi viðráðanlegt fyrir alla.

Stjórn og starfsmenn vænta góðs samstarfs við félagsmenn árið 2015 eins og áður og fyrr.

Framkvæmdastjóri 12.janúar 2015

„Vandmeðfarið vald“

                                                                 Akureyri 31.12.2014

Ágæti ritstjóri Sigurjón M Egilsson

Í Fréttablaði gærdagsins var birt röng frétt og algerlega ósönn um meinta 13% hækkun mánaðargjalda (sem kölluð var leiga) í félagslegum íbúðum Búseta á Norðurlandi (Akureyri). Þetta kom algerlega í opna skjöldu - þar sem blaðamaðurinn hafði verið upplýstur og vissi hið rétta í öllum meginatriðum.    Það var þannig ekki um að ræða einföldustu gerð af mistökum eða misskilningi frá hendi blaðamannsins.   Hins vegar var augljóst á fyrirspurnum blaðamannsins að hann hafði fengið sinn „misskilning“ frá óvönduðum heimildum, sem þannig tókst að nýta sér veikleika blaðamannsins.

Undirritaður var í sambandi við ritstjórn og átti samtöl við fréttastjóra (Andra) og viðkomandi blaðamann (Svein Arnarson) og krafðist leiðréttinga á þessum útúrsnúningi  - helst á forsíðu blaðsins.  Einnig biðjum við systurfélagi okkar Búseta sem starfar í öflugum rekstri í Reykjavík vægðar í ruglandi fréttaflutningi og fyrirsögnum - þar sem ekki er farið rétt með nafn okkar félags og þeir því knúnir til að freista þess að leiðrétta ruglið í blaðamanni Frbl.

Tók ég munnlegri afsökunarbeiðni fréttastjórans í símtali eins og staðfestingu á því að hann gerði sér grein fyrir alvarleika málsins og vildi bæta með einhverjum hætti fyrir af hálfu Fréttablaðsins.

Á blaðsíðu 2 í blaði gamlársdagsins er að finna hálf-leiðréttingu af hálfu Frbl. Þar sem enginn er samt sem áður beðinn afsökunar á þeim skaða sem röng frétt hafði þá þegar valdið.   

Þessi ranga frétt hefur framkallað alvarlegan skaða fyrir Búseta á Norðurlandi -  og leitt til misskilnings sem verður erfitt að leiðrétta – nema í gegn um sama miðil.    Einhver hópur okkar félagsmanna dró þá ályktun að til stæði að hækka mánaðargjaldið um 13% (enda stóð það í Fréttablaðinu).     Skaðinn er þó ekki síður verulegur gagnvart því fólki sem eru líklegastir framtíðarfélagsmenn í Búseta á Norðurlandi og þátttakendur í sjálfbærum rekstri og þróun félagsins – sem auðvitað hefur dregið þær ályktanir sem blaðamaðurinn matreiddi – gegn betri vitund.

Einnig hefur þessi ósvífni blaðamannsins orðið Búseta í Reykjavík til óþæginda og tjóns – þar sem ruglandi meðferð nafna félaga og hugtaka eins og „leigu“ í stað mánaðargjalds/búsetugjalds -  þar sem búsetarnir eru eigendur allra íbúða í stað einnar.

Ekki kemur til greina að Fréttablaðið eigi sérstaklega í stríðið við Búseta á Norðurlandi  -  eða neinn einstakan forsvarsmann félagsins.   Ekki getur heldur verið að einstakir blaðamenn hafi aðgang að forsíðu blaðsins til að reka hernað gegn einu húsnæðissamvinnufélagi – eða til þess að skaða það hagkvæma rekstrarfyrirkomulag.

Af því að leiðari blaðsins í dag bendir til þess að þú ágæti ritstjóri gerir þér grein fyrir því að „ákæruvaldið sé vandmeðfarið“ þá kalla ég eftir því að þú takir þetta mál til skoðunar og jákvæðrar yfirvegunar.     

Áréttuð er krafa Búseta á Norðurlandi um sýnilega afsökunarbeiðni ritstjóra/fréttastjóra Fréttablaðsins – sem komið er á framfæri með áberandi hætti – vegna þessa fráleita fréttaflutnings.    

Í vinsemd en með fullri alvöru:

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi


Rangfærslur í Fréttablaðinu 30.12.2014


Á forsíðu Fréttablaðsins í dag 30.desember 2014 er birt afar "ósanngjörn frétt" - og röng í meginatriðum.
Fullyrt er að "leiga" hækki um 13% í félagslegum íbúðum Búseta á Norðurlandi.  

Hið rétta er að "mánaðargjald" í félagslegum íbúðum á Akureyri hækkar ekki nema um 2,15-4,56% þrátt fyrir að fjármagnsliður mánaðargreiðslunnar hækki um 13%.   

Það var útskýrt fyrir blaðamanni að í félagslegum íbúðum var fjármagnsliðurinn ekki nema  60-65% af mánaðargjaldinu (annað er fasteignagjöld,tryggingar,viðhald og þjónustugjöld og orka ofl).   13% hækkun fjármagnsliðarins  að öðru óbreyttu þýðir þannig ca 8% hækkun á mánaðargjaldi. 

Mótvægisaðgerðir félagsins með niðurskurði á rekstrarkostnaði og frestun á viðhaldi lækka meðalíbúðina á móti um kr.4450 pr. mánuð -  sem kemur að fullu til skila fyrir félagslegu íbúðirnar - og þannig vega mótvægisaðgerðirnar hlutfallslega meira í félagslegum íbúðum (4,5-5% lækkun) heldur en í almennu íbúðum félagsins (2-3% lækkun).

Samkvæmt áætlun felur boðuð gjaldskrárbreyting þannig í sér að hækkun á mánaðargjaldinu í félagslegum íbúðum á Akureyri verður í grunninn ekki 13% eins og blaðamaður kaus að segja ósatt um - heldur almennt nærri 4% (minnst 2,15% og mest 4,56%) frá janúar/febrúar 2014 til janúar 2015.   (Álagningarseðlar fasteignagjalda 2015 liggja ekki fyrir - og eru því ekki inni í þessum útreikningum.)  

Í verðbólgu sem á fyrrihluta ársins 2014 var umfram 2% verður þetta að teljast býsna hóflegt.
 

Það er hins vegar eðli félaga að menn bera sameiginlega ábyrgð og með þessum aðgerðum leitast stjórn og framkvæmdastjóri við að jafna greiðlubyrði félagsins sem hóflegast niður.    Mikilvægast er þó að félagið sker niður kostnað af skrifstofu- og starfsmannahaldi.   

Engin ein íbúð/búseti situr uppi með áföll vegna skemmda eða bilana í íbúðinni -  ekkert eitt hús/búsetar ber kostnað af endurnýjunarviðhaldi t.d. þakviðgerðum -  heldur deilist slíkur kostnaður á alla búseta/hús félagsins.  

Tjón vegna vanskila einstakra búseta lendir því miður á öllum öðrum félagsmönnum.

Þessi atriði voru ítarlega kynnt og rædd á aðalfundi félagsins og nánar bréflega fyrir öllum búsetum og í fréttum á heimasíðu.    Reikningar félagsins eru opinberir og allir félagsmenn hafa aðgang að fundum og geta beint athugasemdum sínum til stjórnar og starfsmanna.

Það er sorgarefni "að blaðamanni skuli hafa orðið á þau alvarlegu mistök" að birta ranga frétt -  vitandi þó hið rétta í meginatriðum.   

Auk þess er afar leitt að blaðamanninum virðist fyrirmunað að fara rétt með nafn félagsins sem í hlut á sem er Búseti á Norðurlandi og biðjum við systurfélagi okkar Búseta sem starfar í Reykjavík vægðar í því efni.

Framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi fer fram á að Fréttablaðið leiðrétti hina röngu frétt og biðji alla hlutaðeigandi afsökunar á rangfærslunni -  helst á forsíðu blaðsins.

30.12.2014
Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri


Gleðileg jól


Búseti á Norðurlandi óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra - sem og starfsmönnum og viðskiptavinum - gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Skrifstofa félagsins verður lokuð á aðfangadag og gamlársdag - en opin aðra virka daga milli kl.10 og 12.

Vonandi tekst að moka snjó af stéttum og plönum þannig að allir komist ferða sinna slysalaust.

Minnum á að skilaboð berast í gegn um heimasíðuna 24tíma á sólarhring  -  en í neyðartilvikum verður hægt að ná til umsjónarmanns eða framkvæmdastjóra í GSM.

Farið varlega um jólin.

Framkvæmdastjóri 23.12.2014Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.12 2007 - Stefna ehf

Skrá inn